Ef þú skoðar WordPress hýsingu hjá mismunandi aðilum, þá getur það komið á óvart að sjá hversu mikill verðmunur er á ódýrustu hýsingunni sem þú sérð og þeirri dýrustu. Öll viljum við það besta fyrir börnin og vefina okkar. Spurningin er samt sú hversu öfluga hýsingu þú þarft fyrir vefinn þinn, því of öflug hýsing geti verið sóun á fjármunum á meðan vefurinn þinn er að vaxa og dafna.
Í þessari grein munum við fara yfir þrjá vinsælustu hýsingarkostina, og gera grein fyrir kostum og göllum hvers þeirra Verður þá einkum horft til verðs, afkasta og annarra fídusa eins og afritunar o.fl.
Almenn hýsing
Þetta er algengast form vefhýsingar fyrir WordPress og aðra almenna vefi. Ef þú ert að byrja með lítinn vef þá ætti þetta form hýsingar að vera nóg fyrir þig. Í almennri hýsingu þá ertu að deila vefþjóni með mörgum öðrum notendum, sem skýrir af hverju það er almennt talað um þetta sem shared hosting á ensku.
Kostir / Gallar
Kosturinn við almenna hýsingu er verðið. Almenn hýsing er ódýrasta hýsingin sem völ er á. Ef þú kaupir vefhýsingu hjá aðila eins og Bluehost (sem er eingöngu nefndur til skýringar, en við mælum hvorki með né á móti), þá geturðu fengið hýsingu fyrir u.þ.b. 500 krónur á mánuði
Fínt á meðan þú ert að byrja, þú hefur takmarkaða fjármuni til að verja í vefinn og/eða þú ert ekki viss hvert þú vilt fara með þetta verkefni þitt. Einnig ágætt ef þú gerir aldrei ráð fyrir mikilli umferð á vefinn.
Helsti gallinn við almenna hýsingu eru afköst vefsins. Það er ekki að ástæðulausu að þú ert að borga svona lítið fyrir almenna hýsingu, sem er vegna þess að margir eru að deila vélinni þinni eins og við nefndum að ofan. Það þýðir að ef vefurinn þinn gæti fengið mikla vaxtarverki ef hann verður vinsæll, og þá þarftu að skoða aðra kosti.
Dæmi um vinsæla hýsingaraðila sem bjóða upp á almenna hýsingu:
- Bluehost
- 1984.is
Stýrð hýsing
Þetta er það sem er almennt kallað Managed hosting á ensku (fyrir þá sem vilja kynna sér þetta nánar). Ef þú ert með stýrða hýsingu þá ertu í raun að kaupa hugarró.
Vefurinn þinn keyrir vel, þú þarft ekki hugsa um afrit af vefnum eða hvaða flýtiminnisviðbót (e. caching plugins) er best til að bæta afköst vefjarins) svo dæmi sé tekið. Í stýrðri hýsingu er jafnan séð til þess að síðan þín sé með nýjustu útgáfuna af WordPress uppsetta, daglegt afrit er tekið af síðunni o.fl.
Þegar þú ert með stýrða hýsingu þá er líka oft boðið upp á æfingasvæði (e. staging site), þar sem þú getur prófað viðbætur eða nýtt þema og svo rúllað út þeirri breytingu á vefnum án þess að vefnun sé lokað vegna breytinga.
Helstu kostirnir við stýrða hýsingu er þessi hugarró sem fylgir henni. Ef þú ert með vefsíðu sem er að skapa þér tekjur, þá mælum við eindregið með því að þessi hýsingarkostur sé skoðaður, því þetta á að tryggja betri afköst en þegar vefurinn er í almennri hýsingu.
Gallinn við stýrða hýsingu er að hún er almennt rukkuð eftir heimsóknafjölda. Það þýðir að þú borgar t.d. 3000 krónur á mánuði, og færð 25 þúsund heimsóknir á mánuði. Ef þú ferð yfir þann fjölda heimsókna á mánuði þá borgarðu eitthvað aukagjald.
Dæmi um vinsæla hýsingaraðila sem bjóða upp á stýrða hýsingu:
- WP Engine
- Veföld
VPS sýndarvél
Í VPS umhverfi (VPS stendur fyrir virtual private server) þá færðu þína eigin sýndarvél. Þú kaupir þá aðgang að þinni eigin vél, velur stýrikerfi, örjgjörvastyrk, vinnsluminni, stærð og hraða disks, bandvídd o.fl.
Helstu kostirnir við að keyra WordPress á þinni eigin VPS sýndarvél eru afköst og kostnaður. Fyrir $5-$20 á mánuði geturðu sett upp vél sem skilar jafngóðum eða betri afköstum heldur en á vél sem er í stýrðri hýsingu.
Helsti gallinn við VPS hýsingu er að það er ekki fyrir hvern sem er að reka sína eigin VPS sýndarvél. Það má orða það svo að í almennri og stýrðri hýsingu er hýsingaraðilinn þinn að sjá um uppvaskið og eldamennskuna á meðan þú sest bara niður og borðar, en með VPS sýndarvél þarftu að sjá um máltíðina frá byrjun til enda.
Þegar fólk leitar ráða hjá mér við val á hýsingaraðila þá fæ ég oft spurninguna „hvað myndir þú gera?“, og í þeim tilfellum er svarið oft „ég keyri mína vefi á VPS sýndarvélum, en ég mæli ekki með því fyrir þig.“ Ég hýsi t.d. þennan vef hjá DigitalOcean. Ég var áður með annan vef (einstein.is) í hýsingu hjá WP Engine i yfir tvö ár, og ber þeim einnig vel söguna, en hýsi nú þrjá vefi hjá DigitalOcean fyrir minni pening en einn vef hjá WP Engine.
DigitalOcean bjóða upp á one-click uppsetningu fyrir WordPress til að einfalda málin, en legg til að þú skoðir ekki einu sinni þennan valkost nema að vel ígrunduðu máli.
Dæmi um vinsæla aðila sem bjóða upp á VPS sýndarvélar:
- DigitalOcean
- Linode